Enski boltinn

Roy Hodgson vill fá Ronaldinho til Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ronaldinho
Ronaldinho Mynd/AP
Brasilíumaðurinn Ronaldinho gæti verið á leiðinni á Anfield næsta sumar ef marka má fréttir frá Ítalíu í morgun. Itasportpress heldur því fram að hinn þrítugi fyrrum besti knattspyrnumaður heims sé á óskalistanum hjá Roy Hodgson.

Massimiliano Allegri, þjálfari AC Milan, hefur ekki notað Ronaldinho mikið að undanförnu og vill frekar veðja á landa hans Robinho. Samningur Ronaldinho rennur út í vor og hann hefur líka verið orðaður við Los Angeles Galaxy og fullt af brasilískum liðum.

Ronaldinho hefur ekki náð að skora í 10 leikjum og á 604 mínútum í ítölsku deildinni á þessu tímabili en hann hefur þó lagt upp þrjú mörk. Ronaldinho var með 12 mörk í 36 leikjum á síðasta tímabili. Robinho hefur spilað 798 mínútur í 13 leikjum í Seríu A í vetur og er búinn að skora fimm mörk.

Roy Hodgson sér Ronaldinho fyrir sér passa vel við hlið Spánverjaans Fernando Torres í framlínunni en það gæti samt orðið erfitt fyrir Liverpool að leysa launakröfur Ronaldinho. Brasilíumaðurinn fær 7,5 milljónir evra í árslaun hjá AC Milan eða um 1,1 milljarð íslenskra króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×