Ed Miliband, nýkjörinn leiðtogi Verkamannaflokksins í Bretlandi, segir að arfleifð Tonys Blair eigi að heyra sögunni til.
Nú þurfi Verkamannaflokkurinn að koma nýrri kynslóð stjórnmálamanna á þing, sem lausir eru undan byrði Íraksstríðsins og fjármálakreppunnar.
„Nýi Verkamannaflokkurinn átti rétt á sér á sínum tíma og við munum halda eftir ýmsu úr þeirri stefnu, eins og til dæmis þeirri hugmynd að höfða til allra hópa þjóðfélagsins,“ sagði nýi formaðurinn. „En þessi stefna flæktist í ákveðnum stjórnmálastíl og varð föst í eigin sjálfsöryggi.“
Hann segist ætla að forðast bæði dekur Blairs við viðskiptaheiminn og skilyrðislausan stuðning hans við Bandaríkjastjórn, en sagði þó ekkert hæft í þeirri gagnrýni að hann verði of vinstrisinnaður.
Ed vann í leiðtogakjöri flokksins um helgina sigur á bróður sínum, David, sem var utanríkisráðherra í stjórn Gordons Brown og hafði lengi þótt líklegur til að taka við forystu í flokknum.- gb