Körfubolti

Fjölnir vann lífsnauðsynlegan sigur á Snæfelli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bergdís Ragnarsdóttir skoraði 8 stig fyrir Fjölni í kvöld.
Bergdís Ragnarsdóttir skoraði 8 stig fyrir Fjölni í kvöld.
Fjölnir vann gríðarlega mikilvægan sigur í baráttunni fyrir lífi sínu í Iceland Express deild kvenna í körfubolta í kvöld þegar Fjölnisstelpur unnu ellefu stiga sigur á toppliði B-deildar, Snæfelli, í Grafarvogi, 67-56. Snæfell tapaði þarna sínum öðrum leik í röð en liðið er samt enn á toppi B-deildarinnar með sextán stig eða átta stigum meira en Fjölnir sem komst upp að hlið Grindavíkur með þessum sigri.

Natasha Harris átti frábæran leik fyrir Fjölni en hún var með 31 stig, 7 fráköst og 8 stoðsendingar auk þess að setja niður fjóra þrista í lokaleikhlutanum þegar Fjölnir gerði út um leikinn. Inga Buzoka var með 10 stig og 19 fráköst en Bergdís Ragnarsdóttir var stigahæst íslensku stelpnanna með 8 stig.

Monique Martin var með 18 stig og 18 fráköst hjá Snæfelli, Laura Audere var með 12 stig og Hildur Björg Kjartansdóttir skoraði 11 stig.

Fjölnir byrjaði leikinn vel og komst í 14-3 og 17-5 en það munaði síðan aðeins einu stigi á liðunum eftir fyrsta leikhlutann þar sem Fjölnir var 19-18 yfir. Fjölnir hélt Monique Martin í einu stigi í fyrsta leikhlutanum.

Snæfell komst yfir í byrjun annars leikhluta en Fjölnisliðið fór þá aftur í gang og breytti stöðunni úr 21-22 í 31-22 á fjórum mínútum. Fjölnir var síðan með fimm stiga forskot í hálfleik,33-28. Natasha Harris var komin með 11 stig, 5 fráköst og 6 stoðsendingar í hálfleik.

Snæfell byrjaði seinni hálfleikinn vel og komst yfir í 37-38 eftir fjórar mínútur en Snæfellsstelpur skoruðu síðan ekki síðustu sex mínútur leikhlutans og Fjölnir náði því 43-38 forystu fyrir lokaleikhlutann.

Natasha Harris hóf fjórða leikhlutann á því að skora þrjá þrista á fyrstu þremur mínútunum og kom Fjölnisliðinu tólf stigum yfir, 53-41. Harris skoraði á endanum sautján stig í lokleikhlutanum (Snæfellsliðið skoraði samtals 18 stig) og Fjölnir fagnaði ellefu stiga sigri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×