„Við vorum strax tveimur skrefum á eftir þeim," sagði Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, eftir tapið í kvöld. Snæfellingar voru teknir í bakaríið í kvöld þegar Stjarnan sigraði þá örugglega 94-80 í 20. umferð Iceland-Express deild karla.
„Þeir voru bara miklu sterkari en við alveg frá byrjun og löngunin var mun meiri hjá Stjörnunni en okkur."
„Þetta var virkilega einkennilegt sérstaklega þar sem við vorum að koma frá alveg hreint frábærum leik gegn Haukum í síðustu umferð, en við höfum ekki spilað svona illa lengi," sagði Ingi.
„Svona á heildina litið þá fengum við ekkert almennilegt framlag frá einum né neinum. Þeir voru bara framar en við á öllum sviðum og það var rosalega erfitt fyrir okkur að lenda strax tíu stigum undir en eftir það þurftum við að elta allan leikinn."
Það var einkennandi fyrir leik Snæfellinga að þeir létu dómarana fara mikið í taugarnar á sér nánast allan leikinn.
„Menn verða bara pirraðir ef liðið manns er undir og ekkert gengur upp. Þá fara menn vanalega beint í dómarann. Það hallaði í raun ekkert á okkur í leiknum og við getum alls ekki kennt dómurunum um tapið hér í kvöld."
Snæfell er enn í efsta sæti deildarinnar með 32 stig þegar tvær umferðir eru eftir og því er deildarmeistaratitillinn í sjónmáli.
„Við þurfum bara að klára dæmið sjálfir og þetta er aðeins í okkar eigin höndum. Það verður gríðarlega erfitt að mæta Hamri í næstu umferð sem eru að berjast fyrir lífi sínu og þá þurfum við að eiga betri leik en í kvöld," sagði Ingi Þór nokkuð bjartsýnn á framhaldið.
Körfubolti