Fannar Ólafsson, fyrirliði KR, þumalfingurbrotnaði á æfingu í síðustu viku og verður að taka sér hvíld í fjórar til sex vikur á meðan hann er að náð sér. Fannar spilaði á brotnum putta á móti Tindastól en ætlar að hlusta á lækninn og taka sér hvíld næstu vikurnar.
Þetta þýðir að Fannar mun missa af síðustu þremur leikjum KR í Iceland Express deildinni sem og væntanlega átta liða úrslitum úrslitakeppninnar sem hefst 17. mars. KR á eftir að mæta Grindavík og Snæfell í síðustu umferðunum en liðið er í harði baráttu um deildarmeistaratitilinn.
„Ég fingurbrotnaði á fimmtudagsæfingunni og ég áttaði mig ekki alveg á því og hélt bara að ég hefði bara tognað illa. Ég vildi bara ekki hugsa um þetta því við áttum leik daginn eftir. Ég teipaði bara puttann og spilaði á þessu, rifar Fannar upp en hann meiddist á þumalputta á skothendinni.
„Ég ætlaði bara að spila á þessu áfram en svo heyrði ég í Sveinbirni lækni eftir að ég lét mynda þetta. Hann sagði að það væri kominn sprunga ofan í liðinn og að ég mætti ekki hreyfa þetta. Reyndu nú einu sinni að hlusta á mig sagði hann," sagði Fannar í léttum tón. Fannar ætlar að hlusta á lækninn að þessu sinni svo að hann geti nú notað þumalinn eitthvað í framtíðinni.
„Ég veit ekki hversu lengi ég verð frá en þetta ætti að vera fjórar vikur allavegna. Við þurfum að meta þetta aftur eftir þrjár vikur því þá læt ég mynda þetta aftur. Þá munum við sjá hvernig staðan er," sagði Fannar sem ætlar að halda sér í formi og vonast til þess að missa ekki af mörgum leikjum í úrslitakeppninni.
Körfubolti