Guðjón Skúlason, þjálfari Keflavíkur, telur að það hafi ekki farið of mikil orka í frábæra byrjun sinna manna í DHL-höllinni í kvöld. Skýringin sé önnur. Keflvíkinga léku á alls oddi í fyrsta leikhluta gegn KR en í þeim öðrum vöknuðu heimamenn.
„Við byrjuðum leikinn eins og við ætluðum en fylgdum því ekki eftir,“ sagði Guðjón eftir leikinn í kvöld. KR-ingar náðu fram frábærum varnarleik í öðrum leikhluta og breyttu stöðunni úr 19-31 yfir í 33-31.
„Við vorum ekki nægilega klárir til að halda þessu forskoti og þess vegna endar þetta svona. Varnarlega vorum við ekki að framkvæma það sem við ætluðum að gera og ég á miklu meira inni hjá mínum sóknarmönnum,“ sagði Guðjón.
Hann er þó sannfærður um að hans lið lagi það sem laga þarf fyrir næsta leik á miðvikudag. „Ég held að menn viti alveg hvað það er sem þurfi að laga og við erum í þessu til að klára það. Við förum yfir þetta og mætum ferskir á miðvikudaginn;“ sagði Guðjón.
Guðjón Skúlason: Menn vita hvað þarf að laga
Elvar Geir Magnússon í DHL-höllinni skrifar
