Körfubolti

Yfirlýsing frá KR: KR er sannfært um sakleysi Margrétar Köru

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Margrét Kara Sturludóttir.
Margrét Kara Sturludóttir. Mynd/Daníel
KR-ingar hafa sent frá sér yfirlýsingu í tilefni af umfjöllun fjölmiðla um leikbann Margrétar Köru Sturludóttur og það að hún hafi verið kærð til lögreglu fyrir líkamsárás. Málið má rekja til þess að Margrét Kara sló til Haukakonunnar Maríu Lindar Sigurðardóttur í deildarleik Hauka og KR fyrir tæpum tveimur vikum.

Margrét Kara var dæmd í tveggja leikja bann. Hún tekur seinni leikinn út í kvöld þegar KR tekur á móti Keflavík í öðrum leik liðanna í undanúrslitaeinvígi þeirra í Iceland Express deildar kvenna.

Haukar ætluðu að áfrýja dómnum vegna þess að þeir vildu fá lengra bann en hættu svo við það. Þeir ætla aftur á málið að taka málið fyrir á ársþingi sambandsins í vor.

Keflavík vann fyrsta leikinn 63-60 og getur því komist 2-0 yfir í einvíginu með sigri í kvöld. Margrét Kara snýr síðan aftur í þriðja leikinn sem fer fram í Keflavík á föstudagskvöldið.







Yfirlýsing Körfuknattleiksdeildar KRFyrir helgina birtu fjölmiðlar fréttir af því að leikmaður í körfuknattsliði KR, Margrét Kara Sturludóttir, hefði verið kærð fyrir líkamsárás til lögreglu, fyrir að slá til leikmanns Hauka, í leik liðanna í síðastliðinni viku.  Aganefnd KKÍ úrskurðaði Margréti Köru í tveggja leikja bann vegna atviksins.  Körfuknattleiksdeild KR unir þeim úrskurði, þó forsendur séu umdeilanlegar.

Um var að ræða pústra í hita leiks.  Ekki var með nokkru móti séð að Margrét Kara hafi haft ásetning til að meiða leikmann Hauka.  Margrét Kara bað leikmanninn afsökunar að leik loknum.

KR telur fráleitt að um hafi verið að ræða líkamsárás af ásetningi, í lagalegum skilningi.  Mál af þessu tagi hafa hingað til verið leyst á grundvelli reglna leiksins og agareglna íþróttahreyfingarinnar. Því harmar KR að kærandi hafi séð tilefni til að leggja fram lögreglukæru. KR er sannfært um sakleysi Margrétar Köru og heitir henni fullum stuðningi.

 

Reykjavík, 21. mars 2011

f.h. körfuknattleiksdeildar KR

Böðvar E. Guðjónsson formaður




Fleiri fréttir

Sjá meira


×