Körfubolti

Chazny Morris með rifinn liðþófa - ekki meira með KR í úrslitakeppninni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Chazny Paige Morris.
Chazny Paige Morris. Mynd/Stefán
KR-konur urðu fyrir öðru áfalli í gær þegar ljóst var að bandaríski leikmaðurinn Chazny Paige Morris er með rifinn liðþófa og verður ekki meira með í úrslitakeppninni.

Áður hafði Margrét Kara Sturludóttir verið dæmd í tveggja leikja bann og þær verða því hvorugar með í öðrum leiknum í undanúrslitaeinvígi Keflavíkur og KR sem fram fer í DHL-höllinni á morgun.

„Það kom í ljós seint í gær að hún er með rifinn liðþófa. Við vissum ekki hvað þetta var en vissum að þetta væri eitthvað mikið," sagði Hrafn Kristjánsson, þjálfari KR.

„Hún var eyðilögð yfir þessu en við vorum kannski ánægð að heyra að þetta væri liðþófaskaði en ekki eitthvað í krossböndunum. Okkur fannst þetta vera krossbönd á staðnum," segir Hrafn.

„Eins og staðan er núna þá verða stelpurnar bara að einbeita sér að því sem þær gerðu vel í fyrsta leiknum og þá sérstaklega varnarlega. Þær geta ekki treyst á það að það verði komin einhver hjálp í næsta leik," segir Hrafn en hann segist ekki vera búinn að finna bandarískan leikmann til þess að fylla í skarð Morris.

„Það er alltaf þannig þegar svona gerist að maður sendir út einhverjar fyrirspurnir og er opinn fyrir öllu. Það er bara svo margir óvissuþættir á þessum árstíma eins og hvort leikmenn séu í formi eða tilbúnir að koma hingað fyrir einn eða tvo leiki. Svona samningar eru ekki mjög einfaldir. Það væri eitthvað kraftaverk ef við náum inn nýjum leikmanni fyrir morgundaginn," segir Hrafn.

Hrafn er þegar búinn að ákveða það að Sólveig Gunnlaugsdóttir komi inn í byrjunarliðið fyrir Morris á morgun. Sólveig lék mjög vel í síðasta leik en hún er nýbúinn að taka fram skóna í nýjan leik.

„Þetta er bara spennandi. Sólveig Helga kemur inn í byrjunarliðið á morgun. Hún er búin að vera að vaxa, vaxa og vaxa og hefur rosalegan leikskilning. Það reynir meira á þessar stelpur en það er það sem þessir leikmenn vilja," segir Hrafn.

„Sama hvernig fer þá ætlum við bara að reyna að ná fyrsta leiknum til baka og búa til nýja þriggja leikja seríu með Köru í liðinu," sagði Hrafn en Margrét Kara Sturludóttir kemur inn í KR-liðið í þriðja leiknum sem fram fer á föstudaginn kemur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×