Íslands- og deildarmeistarar Snæfells mæta Stjörnunni í kvöld í þriðja leik liðanna í undanúrslitarimmu þeirra í úrslitakeppni Iceland Express-deildar karla.
Stjarnan hefur 2-0 forystu í einvíginu en leikurinn í kvöld fer fram í Stykkishólmi. Stjörnumenn hafa aldrei áður komist í lokaúrslitin og geta því brotið blað í sögu félagsins í kvöld.
Úrslit Íslandsmótsins í körfubolta hafa ráðist í úrslitakeppni síðan 1984 og hafa ríkjandi deildarmeistarar aðeins sex sinnum ekki komist áfram í lokaúrslitin.
Það hefur aðeins einu sinni gerst að deildarmeisturum er „sópað" út úr úrslitakeppninni fyrir lokaúrslitin. Það var árið 1989 er Njarðvík tapaði fyrir KR í undanúrslitum, 2-0. Þá þurfti aðeins að vinna tvo leiki til að komast í úrslitin.
Snæfell sló einmitt ríkjandi deildarmeistara KR úr leik í undanúrslitum fyrra, 3-2, eftir hörkurimmu þar sem að allir leikir unnust á útivelli.
KR var þá ríkjandi Íslandsmeistari en engu liði hefur tekist að verja þann stóra síðan að Keflavík gerði það árið 2005.
Stjarnan er nú að keppa í undanúrslitum úrslitakeppninnar í fyrsta sinn frá upphafi.
Körfubolti