Bandaríska knattspyrnuliðið LA Galaxy er tilbúið að bjóða ítalska knattspyrnumanninum Francesco Totti 14 milljónir evra í árslaun gangi hann til liðs við félagið. Fyrir hjá Galaxy eru stjörnur á borð við David Beckham, Landon Donovan og Juan Pablo Angel.
Ítalska dagblaðið La Gazzetta dello Sport greinir frá þessu. Galaxy undir stjórn Bruce Arena hefur byrjað tímabilið vestanhafs með ágætum og eru á toppi Vesturdeildar.
Þrátt fyrir gylliboð Galaxy er talið ólíklegt að Totti samþykki það. Totti skoraði 15 mörk og lagði upp níu í 32 leikjum með Roma í Serie A á síðustu leiktíð.
Spánverjinn Luis Enrique er nýr þjálfari Roma.
