„Ég er bara helvíti spenntur. Þetta verður hörkuvetur. Bara gaman," sagði nýjasti liðsmaður KR í körfunni Emil Þór Jóhannsson. Emil Þór var kynntur til leiks í KR-heimilinu eftir að hafa skrifað undir samning við félagið.
Emil Þór sem undanfarin tvö tímabil hefur spilað með Snæfelli segist hafa haft nokkur járn í eldinum.
„Ég var búinn að skoða nokkur lið en mér leist bara best á KR og ákvað að skella mér hingað," sagði Emil Þór.
Emil Þór segir ævintýrið í Hólminum ekki búið. Hann hafi átt tvö góð ár og á eftir að sakna strákanna í liðinu.
„Nei, alls ekki. Þeir eru með hörkulið og verða flottir í vetur."
KR-ingar hafa misst þrjá sterka leikmenn frá því í fyrra. Brynjar Þór Björnsson, Marcus Walker og Pavel Ermolinskij eru horfnir á braut. Finnur Emil fyrir pressu?
„Nei, alls ekki. Við erum með hörkustráka og flott lið. Við berjumst um alla titla í vetur," segir Emil Þór.
