Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra er ekki með aukinn viðbúnað hér á landi vegna sprengjuárásarinnar í Osló. Guðrún Jóhannesdóttir, fulltrúi almannavarnadeildarinnar segir að það sé stjórnvalda að taka ákvörðun um slíkt.
Almannavarnadeildin fylgist engu að síður grannt með málum í Noregi, en deildin er búin undir að bregðast við sambærilegri árás hér á landi.
„Við erum að sjálfsögðu alltaf í viðbragðsstöðu fyrir hvers konar atburði, af þessu tagi jafnt sem öðrum," segir Guðrún, en bætir við að efla þyrfti almannavarnadeildina ef til þess kæmi.
Hún segir að á fundi almannavarnadeilda á Norðurlöndum síðasta vor hafi verið rætt um möguleg atvik sem almannavarnadeildir á Norðurlöndum gætu þurft að bregðast við. Beinar árásir á löndin hafi verið á meðal þess sem þar var rætt.
Allt frá hryðjuverkaárásunum á tvíburaturnana í New York árið 2001 hefur verið rætt um hættuna á árásum á Norðurlöndin, en Guðrún segir að nú séum við að horfa upp á það gerast.
Guðrún segir ómögulegt að segja hvort Íslandi stafi hætta af sprengjuárásum eins og þeirri sem varð í Noregi í dag, en segir þó ekkert sérstakt benda til þess.
Viðbúnaður á Íslandi ekki verið aukinn vegna sprengjunnar
Hafsteinn Hauksson skrifar
