Erlent

Mataræði og lífsstíll geta lengt ævina um 15 ár

Mataræði sem tíðkast við Miðjarðarhafið ásamt heilbrigðum líffstíl getur lengt ævi fólks um allt að 15 ár. Þetta er niðurstaða rannsóknar sem stóð yfir í áratug.

Rannsókn þessi var unnin á vegum Maastricht háskólans í Hollandi og náði til um 120.000 einstaklinga sem voru á aldrinum 55 til 69 ára árið 1986 en fylgst var náið með þeim fram til ársins 1996.

Matarræðið við Miðjarðarhaf felur í sér mikið af grænmeti, ólívuolíu, ávöxtum, fiski og korni en lítið af kjöti og áfengi. Lífsstíllinn felur m.a. í sér að reykja ekki, fá nóg af hreyfingu og halda línunum í lagi.

Í ljós kom að konur sem fylgdu þessu matarræði og lífsstíl lifðu að meðaltali 15 árum lengur en þær konur sem gerðu slíkt ekki og karlar lifðu að meðaltali 8 árum lengur.

Piet van den Brandt prófessor við háskólann segir að fáar rannsóknir sem þessar hafi verið gerðar í heiminum en niðurstaðan sé alveg ljós. Þegar saman fari heilbrigður lífstíll og mataræði bætir það verulega lífslíkur fólks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×