Benedikt Guðmundsson og lærisveinar hans í Þór úr Þorlákshöfn unnu óvæntan níu stiga sigur á ÍR, 101-92, í Seljaskólanum í Iceland Express deild karla í körfubolta í gærkvöldi en það er óhætt að segja að Þórsarar hafi verið búnir að bíða lengi eftir þessum útisigri.
Þórsarar eru að spila í Iceland Express deild karla í fyrsta sinn í rúm fjögur ár en lítið hafði gengið hjá liðinu utan Þorlákshafnar þegar liðið var síðast meðal þeirra bestu.
Þór vann ekki útileik þegar liðið spilaði síðast í úrvalsdeildinni 2006-2007 og tapaði ennfremur tíu síðustu útileikjum sínum fyrsta tímabilið sitt 2003-2004.
Þórsarar voru því búnir að tapa 22 útileikjum í röð í úrvalsdeild karla en þeir töpuðu naumlega fyrir KR í DHL-höllinni í fyrstu umferðinni.
Þess má geta af þrjú af ellefu töpum Þórs á útivelli veturinn 2006-2007 komu eftir framlengingu og eitt að auki með aðeins eins stiga mun.
Þór vann sinn fyrsta útileik í úrvalsdeild karla sem var á móti Breiðabliki í Smáranum 19. október 2003 eða fyrir rétt tæpum átta árum síðan. Nú er bara vonandi fyrir Þórsara að þeir þurfi ekki að bíða svona lengi eftir þeim næsta.

