Hreggviður Magnússon sagði að David Tairu hafi litið út eins og eitt stórt spurningamerki í framan þegar hann bað um leikhlé í opnu spili í leik KR og Keflavíkur í kvöld.
Keflavík var stigi undir, 74-73, þegar liðið vann boltann af Tairu sem hafði beðið um leikhlé þegar fimmtán sekúndur voru eftir. Gestirnir náði tveimur skotum að körfunni á lokasekúndunum en allt kom fyrir ekki og KR fagnaði góðum sigri.
„Þetta er ekki eins og í Bandaríkjunum. Þá mega leikmenn kalla á leikhlé í opnu spili,“ sagði Hregviður og hló. „Greyið David, hann var eitt stórt spurningamerki í framan. En sem betur reyndust þetta ekki dýrkeypt mistök fyrir okkur, þó svo að þau hafi verið fjölmörg í lokin og vorum við ljónheppnir að hafa sloppið með sigurinn.“
Hér fyrir neðan má finna umfjöllun og viðtöl um leikinn í kvöld.
