Haukur Óskarsson, leikmaður Hauka, var að vonum mjög svekktur með að liði hans tókst ekki að komast í úrslitaleik bikarsins. Eftir jafnan leik gegn Grindavík í kvöld sigldu þeir gulu fram úr í lokin.
„Grindavík er með reynslumikið lið og þeir vita nákvæmlega hvað þeir eru að gera," sagði Haukur Óskarsson, leikmaður Hauka, eftir leikinn. „Þeir tóku þennan leik ekkert á meiri baráttu eða meiri hæfileikum heldur bara reynslunni. Þeir komu tilbúnir í þennan leik."
„Þetta var jafn leikur allan tímann. Það er rosalega svekkjandi að komast ekki í úrslitaleikinn. Það spáði okkur enginn neinu í þessari deild og það hefði verið gaman að koma öllum á óvart. Ég veit að við erum búnir að koma mörgum á óvart nú þegar með því að komast í undanúrslit."