Körfubolti

Keflavík spillti sigurhátíð Hamarskvenna í Hveragerði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bryndís Guðmundsdóttir lék vel fyrir Keflavík í Hveragerði í kvöld.
Bryndís Guðmundsdóttir lék vel fyrir Keflavík í Hveragerði í kvöld. Mynd/Arnþór

Keflavík endaði sextán leikja sigurgöngu Hamars í Iceland Express deild kvenna og kom í veg fyrir að Hamarsliðið tryggði sér deildarmeistaratitilinn í uppgjöri tveggja efstu liðanna í Hveragerði í kvöld.

Keflavík vann leikinn 93-86 eftir að hafa verið 13 stigum yfir í hálfleik, 55-42, og náði mest 22 stiga forystu í seinni hálfeiknum. Hamar byrjaði leikinn samt vel og var 26-16 yfir eftir fyrsta leikhlutann en Keflavíkurliðið breytti stöðunni úr 28-19 í 32-49 (30-4) á sex mínútna kafla í öðrum leikhlutanum.

Hamar er þó enn með fjögurra stiga forystu á Keflavík þegar liðin eiga þrjá leiki eftir. Keflavík á enn möguleika á því að verða deildarmeistari en liðin eiga síðan eftir að mætast í Keflavík í lokaumferðinni.

Jacquline Adamshick átti frábæran leik hjá Keflavík og var með 33 stig og 20 fráköst en Bryndís Guðmundsdóttir var einnig mjög öflug með 25 stig og 6 stoðsendingar. Pálína Gunnlaugsdóttir skoraði 15 stig fyrir Keflavík og nýi serbneski bakvörðurinn Marina Caran var með 7 stig og 7 stoðsendingar.

Hjá Hamar var Jalesea Butler með þrennu, 29 stig, 13 fráköst og 10 stoðsendingar og Kristrún Sigurjónsdóttir skoraði 19 stig. Það vakti athygli að Slavia Dimovska, leikstjórnandi Hamarsliðsins, skoraði aðeins sex stig á 38 mínútum í leiknum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×