Fótbolti

Fabiano vill fara frá Sevilla í sumar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Framherjinn Luis Fabiano hefur í hyggju að fara frá spænska liðinu Sevilla í sumar en hann hefur verið orðaður við mörg stórlið í Evrópu á undanförnum misserum.

Núverandi samningur Fabiano við Sevilla gildir til loka tímabilsins 2013 en hann segist tilbúinn fyrir aðra áskorun.

„Við erum núna á miðju tímabili og því ef til vill ekki kjörið að ræða þessi mál núna en það er engu að síður alveg ljóst að ég er kominn á endastöð hjá Sevilla," sagði hann við brasilíska fjölmiðla.

„Ég hef unnið marga titla og líka spilað í Meistaradeildinni. Ég hef upplifað margt skemmtilegt í knattspyrnunni síðustu ár en það varir ekki allt að eilífu."

Fabiano fullyrðir að Sevilla hafi hafnað tilboðum frá nokkrum brasilískum liðum og að sú umræða hafi flækt málin.

„Þessir orðrómar hafa gert síðustu mánuði erfiða en ég er engu að síður ánægður með mína frammistöðu inn á vellinum. Félög eins og Corinthians, Santos og Inter Porto Alegre vildu öll fá mig en Sevilla ákvað að hlusta ekki á nein tilboð."

Fabiano dreymir enn um að vinna titla með brasilíska landsliðinu eftir vonbrigðin á HM í Suður-Afríku í sumar.

„Ég vil hjálpa liðinu að vinna Copa America. Ég var óánægður eftir HM í sumar og nú vil ég vinna titil með Brasilíu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×