ÍR-ingar unnu sinn annan stórsigur í röð í Seljaskólanum þegar þeir lögðu Hauka, 104-86, í Iceland Express deild karla í kvöld. ÍR-liðið vann aðeins 2 af fyrstu 10 deildarleikjum sínum í vetur en þetta var fimmti sigur Breiðhyltinga í síðustu sjö leikjum.
Kelly Biedler var með 34 stig og 13 fráköst hjá ÍR og Nemanja Sovic skoraði 23 stig. Semaj Inge skoraði 20 stig fyrir Hauka og Gerald Robinson var með 15 stig.
ÍR-ingar voru sterkari frá byrjun leiks og komust í 6-2, 11-4 og 17-9. ÍR-liðið var síðan tólf stigum yfir, 32-20, eftir fyrsta leikhlutann þar sem liðið hitti úr 67 prósent skota sinna þar af 7 af 10 skotum fyrir utan þriggja stiga línuna.
ÍR-ingar héldu forskoti sínu í öðrum leikhlutanum og voru 57-44 yfir í hálfleik. Haukarnir réðu ekkert við Kelly Biedler eða Nemanja Sovic sem voru komnir saman með 41 stig í hálfleik, Bideler með 23 en Sovic með 18. Þeir félagar hittu saman úr 16 af 23 skotum sínum í hálfleiknum.
ÍR-ingar gáfu ekkert eftir í þriðja leikhlutanum sem þeir unnu 23-13 og voru því 23 stigum yfir fyrir lokakleikhlutann, 80-57. Haukarnir náðu aðeins að laga stöðuna í lokin en ógnuðu aldrei sigri heimamanna.
ÍR-Haukar 104-86 (32-20, 25-24, 23-13, 24-29)
ÍR: Kelly Biedler 34/13 fráköst/3 varin skot, Nemanja Sovic 23, James Bartolotta 19/7 stoðsendingar, Sveinbjörn Claesson 12, Eiríkur Önundarson 11, Níels Dungal 3/5 stoðsendingar, Tómas Aron Viggóson 2.
Haukar: Semaj Inge 20/10 fráköst/5 stoðsendingar/5 stolnir, Gerald Robinson 15/7 fráköst, Davíð Páll Hermannsson 11, Örn Sigurðarson 11/4 fráköst, Haukur Óskarsson 8, Sveinn Ómar Sveinsson 8/5 fráköst, Sigurður Þór Einarsson 6, Emil Barja 5/4 fráköst, Óskar Ingi Magnússon 1, Guðmundur Kári Sævarsson 1.