
„Ég er menntaður leikmynda- og búningahönnuður og starfaði við það um árabil, jafnframt leiðsögn við ferðamenn heima og erlendis. Á einhverjum tímapunkti fæddist draumurinn um að bjóða upp á gistingu í heimilislegu umhverfi gömlu húsanna við Grettisgötu, þar sem ég bý. Ég hafði enga þekkingu á viðskiptum og skráði mig því á námskeið fyrir konur í Stofnun og rekstur smærri fyrirtækja hjá Brautargengi. Forsæla Apartmenthouse tók svo á móti fyrstu gestunum árið 2003. Eftir sjö ára starfsemi fannst mér þörf á einhvers konar örvun og næringu fyrir reksturinn. Þá rakst ég á þessa spennandi námskeiðslínu hjá Endurmenntun Háskóla Íslands. Námið var vel uppbyggt og kennararnir mjög góðir, jafnvel reikningsskil og skattamál urðu skemmtileg," segir hún og hlær.
Hlín segir að námið hafi virkilega opnað nýjar víddir og aukið skilning. „Markaðssetning og aukin þekking á heimasíðugerð kemur að góðum notum. Möguleikar Fésbókarinnar voru opinberun og margt fleira var í pakkanum, gert til þess að hjálpa manni af stað eða styrkja í rekstri eigin fyrirtækis."