Tónlist

Slegist um að koma landsmönnum í jólaskapið í ár

Frostrósarfólkið heldur átta tónleika þetta árið. Þeir fyrstu fara fram 3. desember.
Frostrósarfólkið heldur átta tónleika þetta árið. Þeir fyrstu fara fram 3. desember.
Laugardagurinn 3. desember verður jólatónleikadagurinn mikli á höfuðborgarsvæðinu. Í Háskólabíói stíga sprelligosarnir síkátu í Baggalúti á svið á sínum árlegu aðventutónleikum en í Laugardalshöll verður öllu meira umstang; þar býður Björgvin Halldórsson landsmenn velkomna á Jólagesti sína, en meðal þeirra eru Paul Potts og Robin Gibb. Í Hörpunni þetta sama kvöld hefst síðan Frostrósamaraþonið mikla þegar fyrstu tónleikarnir af átta fara fram.

Ísleifur B. Þórhallsson, sem hefur veg og vanda af jólatónleikum Björgvins, segir að það hafi komið sér í opna skjöldu þegar hann frétti af því að Frostrósir yrðu þetta sama kvöld. „Við höfum alltaf verið fyrstu helgina í desember," segir Ísleifur. Jólagestirnir hafa notið mikilla vinsælda og hefur yfirleitt selst upp á þá á ansi skömmum tíma.

Ísleifur segir viðbúið að þeir bæti við aukatónleikum sunnudaginn 4. desember, sem rækjust þá einnig á við Frostrósatónleikana. Töluvert er í húfi að allt gangi eins og í sögu því eins og Fréttablaðið greindi frá í fyrra voru miðar á Jólagesti og Frostrósir keyptir fyrir tæpar 300 milljónir íslenskra króna. Ísleifur hefur þó engar áhyggjur og er rólegur yfir þessu, þeir séu búnir að fá til liðs við sig alla þá listamenn og starfsfólk sem þeir þurfi. „En mér finnst þetta lélegt."

Baggalútur heldur jólatónleika í Háskólabíó 3. desember.
Samúel Kristjánsson, skipuleggjandi Frostrósa, telur þennan árekstur ekki eiga eftir að koma að sök.

„Við verðum með tónleikana okkar í þrjá daga þannig að fólk á alveg að geta skipulagt sig og mætt á báða tónleikana." Samúel segir að tónleikarnir hafi verið færðir yfir á þessa helgi sökum þess að þetta hafi verið einu dagarnir þar sem þeir hefðu aðgang að húsinu í nokkra daga fyrir æfingar og undirbúning.

„Tíundi desember var líka eina helgin sem Sissel Kyrkjebø gat komið, þannig að svona gekk þetta upp." Hann er hins vegar efins um að tónleikahaldarar eigi eftir að gjalda fyrir þetta. „Það hefur ekki verið mikill leki á gestum á milli þessara tónleika og það eru kannski fimm til tíu prósent sem þurfa að velja."

freyrgigja@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×