Áður hefur Hjörvar Hafliðason vakið athygli á samskiptum þeirra Sveindísar og Holding á samfélagsmiðlinum Instagram í hlaðvarpsþætti sínum Dr. Football. Þar er rætt um ábendingar þess efnis að Sveindís og Holding hafi verið dugleg að smella á like takkann alræmda hjá hvort öðru.
Hinn 29 ára gamli Holding er líklega þekktastur fyrir tíma sinn hjá Arsenal þar sem hann spilaði um sjö ára skeið frá 2016 og þar til í fyrra. Hann er nú á mála hjá enska úrvalsdeildarliðinu Crystal Palace en hefur ekki átt sjö dagana sæla þar nýverið og ekki spilað með aðalliði félagsins í lengri tíma.
Sveindís Jane er á mála hjá Wolfsburg í Þýskalandi og er ein besta knattspyrnukona sem Ísland hefur alið af sér. Hún hefur í nógu að snúast en í næstu viku er væntanleg barnabók eftir hana og Sæmund Norðfjörð, bók sem ber heitið Sveindís Jane - saga af stelpu í landsliði.
Fram hefur komið að Sveindís vilji með útgáfu bókarinnar veita ungum lesendum innblástur til að stunda reglubundna hreyfingu. Bókin hvetur lesendur til að eltast við drauma sína og stökkva á tækifæri þrátt fyrir að ýmsar áskoranir kunni að verða á leiðinni. Sveindís hefur sagt það mikilvægt að efla sjálfsmynd ungmenna, hvetja þau áfram og stuðla að jákvæðum samskiptum í leik og sporti. Reynsla hennar og saga hafi verið innblástur sem bókin byggir á og hún vilji koma á framfæri við ungt fólk.