
Marvin Valdimarsson hjá Stjörnunni og Magnús Þór Gunnarsson hjá Keflavík eru stigahæstu íslensku leikmennirnir í deildinni, en þeir hafa báðir skorað 119 stig í 6 leikjum, eða 19,8 að meðaltali í leik.
Marvin hefur verið í aðalhlutverki í Stjörnuliðinu eftir að Jovan Zdravevski meiddist og skoraði 53 stig samtals í síðustu tveimur leikjum Stjörnunnar. Marvin hefur hitt úr 19 af 31 skoti sínu í þessum tveimur sigurleikjum, sem gerir 61 prósents skotnýtingu.
Marvin náði í síðasta leik á móti Snæfelli að hækka stigaskor sitt þriðja leikinn í röð, en hann skoraði þá 28 stig og setti niður sex þriggja stiga körfur.
Magnús hefur líka rofið tuttugu stiga múrinn í síðustu tveimur leikjum, en hann hefur skorað mikið fyrir Keflavík þrátt fyrir að þrír erlendir leikmenn leiki með Keflavíkurliðinu. Magnús hefur skorað þrjár eða fleiri þriggja stiga körfur í fimm af sex leikjum sínum og hefur enginn leikmaður í deildinni skorað fleiri þriggja stiga körfur. Magnús hefur sett niður 25 þrista, eða 4,2 að meðaltali í leik.
Magnús er stigahæsti leikmaður Keflavíkurliðsins, en hann hefur skorað aðeins meira en Steven Gerard Dagustino. Magnús er þar með eini íslenski leikmaðurinn sem er stigahæstur hjá sínu liði í Iceland Express-deildinni en öll hin ellefu lið deildarinnar eru með erlendan leikmann í fararbroddi.
Þórsarinn Darrin Govens er langstigahæsti leikmaður deildarinnar, en hann hefur skorað 19 stigum meira en næsti maður og er með 29,0 stig að meðaltali í leik. ÍR-ingurinn Nemanja Sovic er í 2. sætinu með 25,8 stig að meðaltali í leik.