Fótbolti

Slasaðist við tannburstun og missir af leik gegn Barcelona

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eren Derdiyok er seinheppinn maður.
Eren Derdiyok er seinheppinn maður. Nordic Photos / Getty Images
Knattspyrnumenn missa stundum af mikilvægum leikjum eða heilum stórmótum í knattspyrnu af ótrúlegustu ástæðum og nú hefur Svisslendingurinn Eren Derdiyok, leikmaður Bayer Leverkusen, bæst í þann hóp.

Derdiyok var að tannbursta sig heima hjá sér þegar hann rak sig í tannburstaglasið, sem var úr gleri, með þeim afleiðingum að það datt í gólfið og brotnaði. Derdiyok steig á eitt glerbrotið og þurfti að sjö spor til að sauma skurðinn saman.

Af þeim afleiðingum verður hann frá keppni í minnst þrjár vikur og ljóst að hann missir af leik Leverkusen gegn Evrópumeisturum Barcelona í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu þann 14. febrúar næstkomandi. Hann er einnig tæpur fyrir vináttulandsleik Sviss og Argentínu þann 29. febrúar.

Þess má geta að Lionel Messi, besti knattspyrnumaður heims, leikur með bæði Barcelona og argentínska landsliðinu.

Derdiyok fær vonandi tækifæri til að spila á sama velli og Messi þegar að Leverkusen og Barcelona mætast í síðari viðureign liðanna í Meistaradeildinni þann 7. mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×