Körfubolti

Lið með heimavallarrétt í lokaúrslitum hefur ekki tapað í tíu ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Keflavík varð Íslandsmeistari í fyrra.
Keflavík varð Íslandsmeistari í fyrra. Mynd/Daníel
Njarðvík og Haukar hefja í kvöld úrslitaeinvígi sitt um Íslandsmeistaratitil kvenna í körfubolta en fyrsti leikur liðanna hefst klukkan 19.15 í Ljónagryfjunni í Njarðvík. Njarðvík er bikarmeistari og Haukar sópuðu út Íslandsmeisturum Keflavíkur. Haukar geta orðið Íslandsmeistarar í fjórða sinn á sjö árum en Njarðvík er að reyna að vinna sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í kvennaflokki.

Sagan segir að það sé gott að vera með heimavallarrétt í lokaúrslitum hjá konunum því það lið sem hefur haft hann hefur orðið Íslandsmeistari undanfarin níu tímabil eða allt síðan að KR vann 3-2 sigur á ÍS vorið 2002 eftir að hafa lent 2-0 undir í úrslitaeinvíginu.

Keflavík vann 3-0 sigur á Njarðvík í fyrra og árin tvö þar á undan unnu Haukar og KR bæði titilinn þrátt fyrir að hafa tapað fyrsta leik. Bæði liðin tryggðu sér titilinn í oddaleik á heimavelli. Á árunum 2003 til 2008 unnu síðan liðin með heimavallarréttinn 18 af 19 leikjum í úrslitaeinvíginu.

Þessi tölfræði ætti að boða gott fyrir Njarðvíkurkonur sem brjóta blað með sigri í kvöld því það væri þá fyrsti sigurleikur liðsins í lokaúrslitum kvenna. Þær hafa þegar brotið blað á þessu tímabili því bikarmeistaratitill liðsins í febrúar var fyrsti stóri titill kvennakörfuboltaliðs Njarðvíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×