Jennifer Suhr frá Bandaríkjunum tryggði sér í kvöld gullverðlaun í stangarstökki kvenna á Ólympíuleikunum með stökki upp á 4,75 metra. Þá vann Yuliya Zaripova til gullverðlauna í 3000 metra hindrunarhlaupi kvenna.
Yarisley Silva frá Kúbu stökk einnig 4,75 metra en þar sem hún felldi oftar í keppninni en Suhr hafði sú bandaríska sigur.
Heimsmethafinn og sigurvegari á tveimur síðustu Ólympíuleikum, Yelena Isinbayeva frá Rússlandi, stökk 4,70 og fékk bronsverðlaun.
Heimsmet Isinbayevu, frá árinu 2009, er 5,06 metrar.
Þá vann Yuliya Zaripova frá Rússlandi gullverðlaun í 3000 metra hindrunarhlaupi kvenna. Zaripova kom í mark á tímanum 9:06.72 mínútur og bætti sinn besta árangur.
Habiba Ghribi frá Túnis, sem varð önnur, kom í mark á tímanum 9:08.37 mínútum. Sofia Assefa frá Eþíópíu nældi í bronsverðlaun en hún var fjórum hundraðshlutum úr sekúndu á undan Milcah Chemos Cheywa frá Kenía.
Isinbayeva missti gullið til Suhr | Zaripova nældi í gull
Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
