Fjöldi kom saman fyrir utan Hvíta Húsið í gærkvöldi til að minnast þeirra tuttugu barna og sjö fullorðinna sem féllu í skotárás sem gerð var á grunnskólann Sandy Hook í bænum Newtown í Connecticut í Bandaríkjum í gærmorgun. Fólkið krafðist einnig að Barack Obama forseti myndi beita sér fyrir því að herða lög um byssueign í landinu en í ávarpi í gær sagði Obama að yfirvöld yrðu að skera upp herör gegn byssuglæpum.
Það var hinn tuttugu ára gamli Adam Lanza, fyrrverandi nemandi við grunnskólann, sem gekk þar inn í skotheldu vesti með að minnsta kosti þrjár byssur og hóf að skjóta á nemendur og kennara áður en hann féll fyrir eigin hendi. Hann er einnig grunaður um að hafa skotið móður sína, sem var leikskólakennari, til bana áður en hann ók á bíl hennar í skólann.
Lanza er lýst sem mjög velgefnum en jafnframt ákaflega feimnum og mannfælnum. Bróðir hans hefur sagt í viðtölum við lögregluna að Adam hafi þjáðst af persónuleikaröskunum og einhverfu. Honum gekk hinsvegar vel í námi sínu í menntaskóla og hafði unnið til nokkrru verðlauna fyrir námsárangur sinn.