Dómarar munu geta dæmt foreldrum sem skilja sameiginlega forsjá, en Alþingi samþykkti frumvarp um breytingar að barnalögum þess efnis á þriðjudag.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra lagði fram frumvarpið upphaflega, en þá var ekki ákvæði um dómaraheimild um sameiginlega forsjá, þrátt fyrir að í skýrslu nefndar sem fór yfir lögin hafi það verið lagt til. Ögmundur sagðist hafa talið ástæðu til að stíga varlega til jarðar í þessum málum.
Í meðförum velferðarnefndar var frumvarpinu hins vegar breytt til baka og heimildin sett inn. Í rökstuðningi nefndarinnar kom meðal annars fram að Ísland væri eina ríkið á Norðurlöndunum sem ekki gefur dómurum þessa heimild. „Sú reynsla er almennt jákvæð og hefur foreldrum í flestum tilvikum tekist að vinna saman í kjölfar dóms um sameiginlega forsjá, þó svo vissulega séu dæmi þess að samstarf foreldra eftir dóm hafi ekki gengið nægilega vel," stendur í greinargerð nefndarinnar.
Samkvæmt nýju lögunum er foreldrum skylt að leita sátta áður en höfðað er forræðismál eða úrskurðar krafist. Sérstakur sáttamaður boðar þá á sáttafundi og börn sem eru nægilega gömul fá að tjá sig við sáttameðferðina.
Frumvarpið var samþykkt með 44 samhljóða atkvæðum.
- þeb
Geta dæmt sameiginlega forsjá
