Tónlist

Spila Kiss-lögin alveg í klessu

Magni Ásgeirsson og Eiður Arnarsson verða saman í nýju hljómsveitinni.
Magni Ásgeirsson og Eiður Arnarsson verða saman í nýju hljómsveitinni.
Þetta er að öllu leyti til gamans gert. Við ætlum að spila lögin sem við fíluðum sem unglingar alveg í klessu, segir Eiður Arnarsson, útgáfustjóri Senu, bassaleikari Todmobile og meðlimur í Kiss Army Iceland, aðdáendaklúbbi Kiss á Íslandi.

Stofnuð hefur verið hljómsveit sem spilar eingöngu lög bandarísku goðsagnanna í Kiss. Í henni eru sex meðlimir úr Kiss-klúbbnum. Auk Eiðs eru þar söngvarinn Magni Ásgeirsson, Jóhann Hjörleifsson, trommuleikari Sálarinnar, Þráinn Árni Baldvinsson, gítarleikari Skálmaldar, Einar Þór Jóhannsson, gítarleikari Buffs og Dúndurfrétta, og Jón Elvar Hafsteinsson gítarleikari.

Hljómsveitin hefur fengið vinnuheitið Sikk og hefur stefnan verið sett á tónleika næst þegar Kiss-klúbburinn hittist í nóvember. Þá verður einmitt tuttugustu hljóðversplötu Kiss fagnað. Enn á eftir að ákveða hvort þeir félagar verði málaðir eins og goðin sín.

Þegar klúbburinn hittist í fyrsta skipti á Glaumbar fyrir skömmu var haldin spurningakeppni sem Eiður og Einar Þór unnu.

Við lentum saman í liði og rétt mörðum sigur, segir Eiður, sem er nýkominn út úr skápnum sem Kiss-aðdáandi. Ég hefði sennilega gengið í félagið 1977 ef það hefði verið til þá en örugglega aldrei á árunum 1981 til 2007. Svo dreif ég mig á Kiss-tónleika í Köben 2008 og ákvað að hætta að fela það fyrir sjálfum mér og öðrum að ég hefði einhvern tímann haft gaman af Kiss.

- fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×