Skoðun

Kjarklaus vinnubrögð ráðamanna

Herdís Þorvaldsdóttir skrifar
Þingmenn óttast að ef þeir myndu stugga við úreltum forréttindum sauðfjárbænda og ábyrgðarlausri nýtingu þeirra á landinu, myndu þeir missa þeirra rándýru atkvæði. Vegna þessa sama ótta verðum við skattgreiðendur stöðugt að borga milljarða til sauðfjárbænda til framleiðslu á aðra milljón fjár sem nagar landið niður í rót. Síðan borgum við fleiri milljarða til að græða sárin á ofbeittu landinu en árangurinn af öllum fjáraustrinum í viðgerðir er varla sjáanlegur vegna stöðugar ofbeitar.

Hvað er hægt að kalla þetta verklag annað en Bakkabræðravinnu sljórra þingmanna? Þeir sýna bæði okkur skattborgurunum og landinu lítilsvirðingu með því að láta þessa löngu úreltu rányrkju með lausagöngu búfjár viðgangast. Við hljótum að verða að athlægi annarra þjóða þegar þær komast að því að við erum að láta ráfandi herskara sauðfjár og hesta stóð naga stjórnlaust gróður landsins án allrar ábyrgðar eigendanna á afleiðingunum. Núna, eins og á hverju hausti, koma fréttir í blöðunum frá söluaðilum landbúnaðarins að það sé að verða skortur á kindakjöti. Þetta eru alger ósannindi og blekking, einungis til þess að auka söluna og losna við eitthvað af offramleiðslunni úr frystihúsunum. Þar voru geymd um 5.500 tonn af lambakjöti árið 2011. Birgðir eru aftur farnar að hlaðast upp með tilheyrandi kostnaði. Bæði forstjóri SS og markaðsstjóri Norðlenska kannast ekki við skortinn í viðtali í Morgunblaðinu 30. ágúst. Sannleikurinn er sá að framleiðsla á kindakjöti á okkar stórskemmda landi árið 2011 var 3.500 tonnum meiri en innanlandssalan. Til hvers? Hluti af þessari offramleiðslu fer í útflutning sem skilar litlum tekjum og við sem höfum borgað framleiðslu á kjötinu með beingreiðslum til bænda (ríkisstyrk) fáum ekkert af þessum tekjum.

Landgræðslustjóri segir í blaði árið 1997 að: „nú sé loksins til heildarúttekt á jarðvegsrofi og niðurstöðurnar séu dökkar, mjög mikið jarðvegsrof eigi sér stað á um 40% landsins". Hann segir að ástand gróðurs sé víða óviðunandi og að baráttan við gróðureyðinguna verði að vera meðal forgangsverkefna þjóðarinnar. Fagstjóri Landgræðslunnar segir einnig að: „ekki er nóg að stöðva hraðfara landeyðingu, það þarf einnig að vinna að endurheimt landkosta og fyrirbyggja hnignun." Það er ekki nóg að standa í viðgerðum, mikilvægastar eru fyrirbyggjandi aðgerðir. Það er nákvæmlega það sem við erum að segja með myndinni „Fjallkonan hrópar á vægð" sem sýnd verður í sjónvarpi á næstunni.

Landbúnaðarstefna sem snýst um það að halda dauðahaldi í úrelt kerfi er tímaskekkja. Hugsunarhátturinn er að breytast. Breytingar eru bæði fyrirsjáanlegar og óhjákvæmilegar, breytingar boða ekki bara hættur, heldur pláss fyrir ný sóknarfæri; nýja framtíðarsýn. Þetta vildi framsýnt fólk ræða á málþingi á Bifröst í vor. Umræðuefnið var: Framtíð íslensks landbúnaðar í breyttri heimsmynd. Þetta vildu þau ræða við bændaforustuna, en hún mætti ekki – skilaði auðu gagnvart framtíðinni. Er hún svona föst í viðjum vanans? Við þurfum að breyta um framleiðsluhætti og lífsstíl. En fyrst þurfum við að breyta um hugsunarhátt og það á við um bæði bændur og neytendur.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×