Körfubolti

Butler byrjar vel með Valskonum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jaleesa Butler.
Jaleesa Butler. Mynd/Anton
Valskonur byrja nýja árið vel í kvennakörfunni því þær sóttu tvö stig í Stykkishólm í dag í fyrsta leik fimmtándu umferðar Dominos-deildar kvenna. Snæfell var búið að vinna Val tvisvar örugglega í vetur en Valskonur unnu hinsvegar 81-64 sigur í leik liðanna í dag.

Jaleesa Butler lék sinn fyrsta leik með Valsliðinu í dag og það er óhætt að segja að hún hafi byrjað afar vel í Valsbúningnum. Butler var með 18 stig og 19 fráköst í þessum leik. Guðbjörg Sverrisdóttir skoraði 10 af 16 stigum sínum í fyrsta leikhluta og Kristrún Sigurjónsdóttir var með 12 af 16 stigum sínum í seinni hálfeik.

Hildur Björg Kjartansdóttir var stigahæst hjá Snæfelli með 22 stig og 12 fráköst og Alda Leif Jónsdóttir skoraði 14 stig.

Valskonur voru búnar að tapa fjórum útileikjum í röð fyrir leikinn og urðu jafnframt aðeins annað liðið til að sækja stig í Hólminn á tímabilinu. Valsliðið var 24-14 yfir eftir fyrsta leikhlutann og með sjö stiga forskot í hálfleik, 39-32. Valsliðið náði 24 stiga forskoti í fjórða leikhlutanum en Snæfell lagaði aðeins stöðuna í lokin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×