Karlalið Stjörnunnar í körfubolta hefur gengið frá samningi við Bandaríkjamanninn 27 ára Jarrid Frye. Teitur Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar, staðfesti þetta í samtali við íþróttadeild Vísis.
„Hann kom fyrir áramótin og hefur verið með okkur á æfingum. Þetta er loksins orðið fullmannað hjá okkur," sagði Teitur ánægður með liðstyrkinn.
„Okkur líst vel á hann. Hann er tvistur eða þristur, 195 sentimetrar á hæð og var kosinn varnarmaður ársins í Makedóníu í fyrra," sagði Teitur sem telur vörnina líklega hafa verið Akkílesarhæl Stjörnuliðsins í vetur.
„Við vorum með Keith (Cothran) í fyrra sem var frábær varnarmaður. Við vildum fá svoleiðis týpu og þessi getur kannski líka skorað meira en Keith," sagði Njarðvíkingurinn Teitur Örlygsson.
Ljóst er að Stjörnuliðið á eftir að gera harða atlögu að Íslandsmeisaratitlinum með liðstyrknum. Fyrir hefur liðið Bandaríkjamanninn Brian Mills í sínum röðum en tveir Bandaríkjamenn mega leika með hverju liði í deildinni. Þá eru Justin Shouse og Jovan Zdravevski einnig í herbúðum Stjörnunnar en þeir eru með íslenskan ríkisborgararétt.
Stjarnan situr í 3.-4. sæti deildarinnar með 14 stig ásamt Snæfelli. Þór Þorlákshöfn og Grindavík deila efsta sæti deildarinnar með 16 stig.
Keppni í Domino's-deild karla hefst á ný annað kvöld með heilli umferð. Stjarnan tekur á móti Fjölni í Ásgarði.
Aðrir leikir:
Njarðvík - Snæfell
ÍR - Keflavík
Grindavík - Tindastóll
KR - KFÍ
Þór Þorlákshöfn - Skallagrímur
Körfubolti