Það var boðið til mikillar veislu um helgina þegar átta liða úrslit NFL-deildarinnar fóru fram og aldrei áður í sögunni hefur verið skorað eins mikið í átta liða úrslitunum. Vestra er talað um að þetta hafi líklega verið besta helgi í sögu deildarinnar. Slíkt var skemmtanagildi leikjanna.
Nú er ljóst hvaða lið leika til úrslita í Ameríku- og Þjóðardeild en sigurvegarar leikjanna um næstu helgi spila í Super Bowl þann 3. febrúar næstkomandi.
Atlanta Falcons byrjaði gærdaginn á því að vinna lygilegan sigur, 30-28, á Seattle. Atlanta náði 20 stiga forskoti fyrir hlé en hið magnaða lið Seattle kom til baka og komst yfir, 28-27, er rúm hálf mínúta var eftir.
Matt Ryan, leikstjórnandi Falcons, nýtti sekúndurnar sem eftir voru vel. Kom sínu liði í vallarmarksstöðu og Bryant sparkaði í mark af tæplega 50 metra færi til þess að tryggja Falcons dramatískan sigur.
Ekki var sama spenna í leik New England Patriots og Houston Texans. New England sterkara liðið allan tímann og vann sannfærandi 41-28 sigur og komst um leið enn og aftur í úrslit Ameríkudeildarinnar.
Úrslitaleikur Ameríkudeildarinnar:
New England Patriots - Baltimore Ravens kl. 23.30
Úrslitaleikur Þjóðardeildarinnar:
Atlanta Falcons - San Francisco 49ers kl. 20.00
Báðir leikir fara fram á sunnudaginn næsta og verða í beinni útsendingu á ESPN America sem má finna á fjölvarpi Digital Ísland.

