Ray Lewis, hinn goðsagnakenndi leikmaður Baltimore Ravens sem leikur sinn síðasta leik á ferlinum í Super Bowl, neitar því staðfastlega að hafa tekið ólögleg lyf til þess að hraða bata sínum í vetur.
Lewis reif þríhöfða í handlegg fyrr í vetur. Hann var þá afskrifaður út tímabilið. Lewis er aftur á móti mættur aftur á völlinn og mun ljúka ferlinum á stóra sviðinu um helgina.
Í grein sem birt var í Sports Illustrated er því haldið fram að Lewis hafi rætt við mann um notkun á efni sem er ólöglegt.
"Það var sama bullið í gangi fyrir tveim árum síðan. Ég tjái mig ekki um svona bull," sagði Lewis en félag hans stendur við bakið á honum.
"Hann neitar að hafa tekið ólögleg efni og við trúum honum. Ray hefur margoft farið í lyfjapróf með engum fyrirvara á sínum ferli og aldrei fallið."
Ray Lewis sakaður um ólöglega lyfjanotkun
