Haminn Quaintance, einn besti leikmaður Dominos-deildar karla, er á heimleið en Úrvalsdeildarlið Skallagríms í körfuknattleik hefur tekið þá ákvörðun að segja upp samningi við leikmanninn og var hann ekki með liðinu í síðasta leik liðsins í Dominos-deildinni.
Haminn Quaintance var með 20,0 stig, 12,0 fráköst og 4,3 stoðsendingar að meðaltali í leik en hann er hæstur í deildinni í framlagi með 28,6 framlagsstig í leik. Quaintance var með 20 stig og 16 fráköst í sínum síðasta leik sem var í Njarðvík.
Ástæðan er samkvæmt frétt á karfan.is samskiptaörðugleikar leikmannsins við leikmenn og þjálfarateymi. Framkoma leikmannsins og virðingarleysi gagnvart samherjum og starfsmönnum hefur farið stigvaxandi og varð ekki lengur við unað.
Ákvörðunin snýr að engu leiti að frammistöðu leikmannsins inn á vellinum en hegðan hans á æfingum og utan vallarins hafa verið með þeim hætti að ekki var talinn lengur grundvöllur til samstarfs.
Skallagrímsmenn eru í 8. sæti og í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni. Liðið vann 85-83 sigur á Fjölni í síðasta leik þrátt fyrir að leik án Haminn Quaintance en Carlos Medlock skoraði 40 stig í leiknum.
Körfubolti