Golf

Tiger með fjögurra högga forystu fyrir lokadaginn

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Tiger Woods er í góðri stöðu fyrir lokadaginn á WGC Cadillac Meistaramótinu í golfi sem fram fer á Blá Skrímslinu í Flórida nú um helgina. Woods lék þriðja daginn á 67 höggum og jók forystu sína úr tveimur í fjögur högg.

Tiger Woods hefur leikið frábært golf í Flórida þessa vikuna og er á 18 höggum undir pari eftir þrjá daga en tvö síðustu ár hefur mótið unnist á 16 höggum undir pari.

Graeme McDowell er í öðru sæti fjórum höggum á eftir Tiger en hann lék á 69 eða þremur undir pari í gær. Phil Mickelson og Steve Stricker koma næstir á 13 undir pari.

Sergio Garcia er einn fjögurra kylfinga á 11 undir en lítið hefur gengið hjá efsta manni heimslistans, Rory McIlroy. Norður-Írinn er á þremur höggum undir pari líkt og Lee Westwood og er töluvert frá sínu besta um þessar mundir.

Sigurvegari síðasta árs, Justin Rose er á sex undir pari. Tiger Woods stefnir á fyrsta sigur sinn á Bláa skrímslinu í Doral í Flórida frá árinu 2007 en hann vann þrjú ár í röð frá 2005 til 2007.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×