Fótbolti

Stuðningsmenn Man. City safna fyrir auglýsingu í Gazzetta dello Sport

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roberto Mancini.
Roberto Mancini. Mynd/NordicPhotos/Getty

Það vakti mikla athygli um síðustu helgi þegar Roberto Mancini, fyrrum knattspyrnustjóri Manchester City, keypti heilsíðuauglýsingu í Manchester Evening News þar sem hann þakkaði stuðningsmönnum félagsins fyrir árin sín hjá City.

Stuðningsmenn Manchester City voru afar ánægðir með gamla stjórann og stukku strax af stað með söfnun svo þeir gætu svarað í sömu mynt. Grazie Mancini - sjóðurinn var stofnaður og söfnunin í hann gengur frábærlega því 700 stuðningsmenn hafa þegar lagt til sjö þúsund pund eða 1,3 milljónir íslenskra króna.

Stuðningsmenn Manchester City ætla að kaupa heilsíðu auglýsingu í íþróttadagblaðinu La Gazzetta dello Sport og birta hana á laugardaginn. Þar verður Mancini þakkað fyrir góð störf en undir hans stjórn vann Manchester City bæði Englandsmeistaratitilinn (2012) og enska bikarinn (2011). Þetta voru fyrstu stóru titlar félagsins síðan 1969.

Roberto Mancini var rekinn frá Manchester City eftir að liðið tapaði bikarúrslitaleiknum á móti Wigan sem féll síðan úr ensku úrvalsdeildinni aðeins nokkrum dögum síðar. City-liðið hafði áður misst Englandsmeistaratitilinn til Manchester United og mistekist að komast upp úr riðlakeppni Meistaradeildarinnar annað árið í röð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×