Golf

Guðmundur Ágúst, Haraldur Franklín og Axel keppa á Spáni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Axel Bóasson, Haraldur Franklín Magnús og Guðmundur Ágúst Kristjánsson.
Axel Bóasson, Haraldur Franklín Magnús og Guðmundur Ágúst Kristjánsson. Mynd/GSÍmyndir.net
Ísland á þrjá kylfinga á Evrópumóti einstaklinga í golfi sem fer fram dagana 7.-10. ágúst á Real Club de Golf el Prat á Spáni. Mótið er eitt sterkasta áhugamannamót sem fram fer í heiminum á ári hverju þar sem allir bestu áhugakylfingar Evrópu mæta til leiks.

Meðal þeirra sem fagnað hafa sigri á mótinu eru Norður-Írinn Rory McIlroy árið 2006 og Sergio Garcia árið 1995.  

Alls taka 144 kylfingar þátt í mótinu í ár og þar af þrír frá Íslandi þeir Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Haraldur Franklín Magnús úr Golfklúbbi Reykjavíkur og Axel Bóasson úr Golfklúbbnum Keili.  

Haraldur Franklín Magnús varð í öðru sæti á Íslandsmótinu í höggleik en Guðmundur endaði þar í fimmta sæti og Axel varð sjötti. Guðmundur Ágúst  byrjaði mjög illa á Íslandsmótinu en spilaði vel síðustu þrjá dagana.

Leiknar verða 72 holur í mótinu, fyrir lokahringinn verður keppendum fækkað og munu 60 kylfingar leika um sjálfan Evróputitilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×