Á myndbandinu sést konan standa fyrir framan lögreglubíl á miðjum Laugavegi. Því næst gengur hún í átt að bílnum og er greinilegt að lögreglumanninum, sem er undir stýri, hugnast illa framganga hennar. Lögreglumaðurinn stuggar síðan við konunni með bílhurðinni.
Á myndbandinu sést þegar lögreglumaðurinn þýtur út úr bílnum og dregur konuna eftir götunni þannig að hún skellur utan í bekk. Hann þrýstir þá hnénu í bak hennar og handtekur. Tveir lögreglumenn til viðbótar aðstoðuðu síðan við að koma konunni í lögreglubílinn.
Málið vakti mikla athygli þegar það kom upp í sumar og var lögreglan sökuð um að hafa beitt harðræði við handtökuna. Lögreglumaðurinn var leystur undan skyldum sínum á meðan það var til rannsóknar. Málinu var vísað til ríkissaksóknara auk þess sem Umboðsmaður Alþingis vildi upplýsingar um málið.

„Staðreynd málsins er sú að þegar lögreglan þarf að beita valdheimildum sínum til að handtaka fólk þá getur slíkt aldrei litið vel út á myndbandi og sér í lagi fyrir þá sem ekki þekkja til,“ sagði Snorri. „Eftir því sem ég hef heyrt frá starfandi lögreglumönnum þá er þetta í fullkomnu samræmi við þær handtökuaðferðir sem nú eru kenndar. Svokallað norskt handtökukerfi sem var tekið upp hér á landi fyrir nokkrum misserum. Aðferðin sem þarna er notuð er algjörlega í samræmi við það kerfi. Vissulega er það óheppilegt að þessi bekkur skuli vera þarna á Laugaveginum og fyrir vikið lítur atvikið verr út en ella.“
Snorri gagnrýndi þá að lögreglumanninum hafi verið vikið frá störfum enda séu menn saklausir uns sekt sé sönnuð.