Matthías Orri Sigurðsson, ungi og efnilegi bakvörðurinn í KR, sem var nýkominn heim til Íslands eftir tvö ár í skóla í Bandaríkjunum, mun ekki spila með KR í vetur.
Karfan.is segir frá því að Matthías Orri hafi fengið að rifta samningi sínum við KR-liðið en hann sá ekki fram á mikinn spilatíma eftir að Pavel Ermolinskij samdi við Vesturbæjarliðið.
Matthías Orri er 19 ára og var í Íslandsmeistaraliði KR vorið 2011. Hann er yngri bróðir landsliðsmannsins Jakobs Arnar Sigurðarsonar og hefur spilað með yngri landsliðum Íslands.
Matthías Orri er búinn að fá félagsskipti í ÍR en ÍR og KR mætast einmitt í Lengjubikarnum í DHL-höllinni á morgun.
Örvar Kristjánsson er tekinn við liði ÍR og hann hefur verið fengið til sín efnilega stráka sem fá eflaust stór hlutverk hjá ÍR-liðinu í vetur. Auk Matthíasar hafa Björgvin Hafþór Ríkharðsson og Birgir Þór Sverrisson ákveðið að spila með ÍR í Dominos-deildinni í vetur.
Körfubolti