Lið Jacksonville Jaguars er brandaralið NFL-deildarinnar. Liðið getur ekkert og spá margir því að liðið vinni ekki leik í vetur.
Það hefur verið á brattann að sækja hjá Jacksonville undanfarin ár og liðið er enn eina ferðina að byggja upp nýtt lið.
Stemningin fyrir liðinu í Jacksonville er ekkert sérstaklega mikil og aðsókn á leiki ein sú versta í deildinni.
Forráðamenn félagsins hafa því ákveðið að gera sitt besta til þess að draga fólk á völlinn. Aðferðin er klassísk og virkar oftar en ekki. Hún er að gefa fólki frían bjór.
Þeir sem kaupa sæti á ákveðnum stöðum á vellinum munu fá tvo fría bjóra með miðanum sínum. Verður áhugavert að sjá hvort þessi aðferð dugi til þess að fylla völlinn.
