Bayern München setti nýtt met í þýsku úrvalsdeildinni í dag þegar liðið vann 3-0 heimasigur á Augsburg í 12. umferð deildarinnar en auk þess náðu Bæjarar fjögurra stiga forskoti á toppnum því á sama tíma tapaði Dortmund sínum leik.
Bayern München jafnaði 30 ára gamalt met Hamburger SV um síðustu helgi með því að spila sinn 36. leik í röð án þess að tapa en á Bæjarar eiga nú metið einir, 37 leiki í röð í þýsku úrvalsdeildinni án þess að tapa.
Jérôme Boateng kom Bayern í 1-0 á 4. mínútu og Franck Ribéry bætti við öðru marki á 42. mínútu. Thomas Müller innsiglaði síðan sigurinn með marki úr vítaspyrnu á fimmtu mínútu í uppbótartíma.
Marco Reus kom Dortmund í 1-0 á útivelli á móti Wolfsburg en Ricardo Rodríguez og Króatinn Ivica Olić tryggðu Wolfsburg 2-1 sigur. Wolfsburg-liðið er komið upp í 4. sæti eftir sigurinn en Bayer 04 Leverkusen er í 3. sæti eftir 5-3 sigur á Hamburg.
Suður-Kóreumaðurinn Heung-Min Son skoraði þrennu fyrir Leverkusen en hin mörkin skoruðu þeir Stefan Kiessling og Gonzalo Castro.
Úrslitin í þýsku úrvalsdeildinni í dag:
1899 Hoffenheim - Hertha Berlin 2-3
Bayer 04 Leverkusen - Hamburg 5-3
Bayern München - Augsburg 3-0
Schalke 04 - Werder Bremen 3-1
Wolfsburg - Borussia Dortmund 2-1

