Körfubolti

LeBron James og Beckham í samstarf

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James og David Beckham.
LeBron James og David Beckham. Mynd/AFP
Bandarískir miðlar greindu frá því í kvöld að LeBron James, besti körfuboltamaður heims og David Beckham, einn allra frægasti fótboltamaður heims, séu að ræða saman möguleikann á því að stofna nýtt MLS-lið í Miami.

LeBron James er á sínu fjórða ári með körfubolaliði Miami Heat en hann hefur unnið NBA-titilinn með félögum sínum undanfarin tvö tímabil og var kosinn besti leikmaður deildarinnar bæði tímabilin.

David Beckham var í Miami á dögunum þar sem hann snæddi meðal annars kvöldverð með milljarðamæringnum Marcelo Claure og borgarstjóranum Carlos Gimenez en umræðuefnið var nýtt fótboltalið í Miami-borg.

LeBron James staðfesti síðan við fjölmiðla að hann væri flæktur í málið og að það væri áhugi hjá báðum aðilum.  "David og ég erum góðir vinir og það væri frábært fyrir Miami að hafa fótboltalið. Það er áhugi hjá báðum en viðræður eru á byrjunarstigi," sagði LeBron James.

David Beckham setti það inn í samning sinn við Los Angeles Galaxy að hann fengi möguleika á því að eignast MLS-lið á kostakjörum og fór síðan á fullt í að uppfylla þann draum sinn þegar fótboltaskórnir fóru upp a´hillu síðasta vor. Hann þarf hinsvegar að byrja að finna sér borg til að hýsa nýja liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×