Körfuboltaspekingar hafa verið uppteknir af því að lofa þá Elvar Má Friðriksson og Kristófer Acox að undanförnu og ekki að ástæðulausu, enda báðir mikil efni og báðir í úrvalsliði seinni umferðar Dominos-deildar karla. Martin Hermannsson, jafnaldri Elvars og liðsfélagi Kristófers hjá KR, minnti hinsvegar verulega á sig í fyrsta leik KR í úrslitakeppninni sem fram fór í Þorlákshöfn í fyrrakvöld.
Martin fór þá á kostum í 38 stiga sigri KR, 121-83, og í lok leiksins var hann búinn að endurskrifa metabók úrslitakeppni úrvalsdeildar karla. Martin sem verður ekki 19 ára fyrr en í september bætti nefnilega sex ára met Brynjars Þórs Björnssonar og er nú yngsti leikmaðurinn sem hefur náð að skora 30 stig í einum leik í úrslitakeppni.
Brynjar Þór setti gamla metið í þriðja leik KR og Snæfells í undanúrslitum úrslitakeppninnar 2007. Brynjar bætti þá einnig sex ára met en Njarðvíkingurinn Logi Gunnarsson braut 30 stiga múrinn í tvígang með sjö daga millibili í lokaúrslitunum á móti Tindastól í apríl 2001. Logi varð þá fyrsti táningurinn til að skora yfir 30 stig í úrslitakeppninni á Íslandi.
Martin byrjaði reyndar leikinn á bekknum en kom inn á fyrir einmitt Brynjar Þór eftir rúmar fjórar mínútur. Hann var kominn með 9 stig við lok fyrsta leikhluta og var með 19 stig í hálfleik. Martin var ekki hættur því hann bætti við 14 stigum og 5 stoðsendingum í seinni hálfleiknum og komst í 30 stigin þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir. Martin nýtti alls 13 af 18 skotum sínum í leiknum (72 prósent) þar af 4 af 5 þriggja stiga skotum sínum.
KR-ingar geta tryggt sér sæti í undanúrslitunum með sigri á Þór í DHL-höllinni á sunnudagskvöldið og Stjörnumenn eru í sömu stöðu þegar þeir heimsækja Keflvíkinga.
Yngstu leikmenn til að skora yfir 30 stig í úrslitakeppni1. sæti Martin Hermannsson, KR
18 ára, 6 mánaða og 5 daga
33 stig á móti Þór Þorlákshöfn 21. mars 2013
2. sæti Brynjar Þór Björnsson
18 ára, 8 mánaða og 20 daga
31 stig á móti Snæfelli 31. mars 2007
3. sæti Logi Gunnarsson, Njarðvík
19 ára, 7 mánaða og 5 daga
36 stig á móti Tindastól 17. apríl 2001
4. sæti Logi Gunnarsson, Njarðvík
19 ára, 7 mánaða og 12 daga
36 stig á móti Tindastól 17. apríl 2001
5. sæti Hjörtur Harðarson, Grindavík
21 árs, 11 mánaða og 22 daga
37 stig á móti Njarðvík 7. apríl 1994
