Pund Jónasar Þorsteinn Pálsson skrifar 28. september 2013 06:00 „Búinn er úr bálastorku / bergkastali frjálsri þjóð.“ Þessar ljóðlínur er að finna í kvæði Jónasar, Fjallið Skjaldbreiður. Tómas sagði um Jónas að hann hefði verið vegsögumaður þjóðar sinnar á leiðinni til meiri fegurðar og frelsis. Haft er eftir Sigurði Nordal að íslenska sé það sem Jónas skrifaði og Konráð samþykkti. Varla er unnt að lyfta einum manni til meiri vegs. Á miðvikudag í þessari viku tilkynntu handhafar fullveldisins í peningamálum að gefinn verði út tíu þúsund króna seðill tileinkaður Jónasi og með tilvitnun í ljóðið Fjallið Skjaldbreiður. En nú er hún Snorrabúð stekkur. Verðgildi nýja seðilsins er helmingi lægra en það var þegar undirbúningur útgáfunnar hófst. Seðillinn minnir ekki á bergkastala frjálsrar þjóðar. Þvert á móti er hann tákn um haftamúr og skert frelsi. Það er ekki í mannlegu valdi að minnka listaskáldið. En fremur er það þó fallið til að létta pund Jónasar en hitt að gera hann, að öllu án tilefnis, að helstu sýnilegu ímynd þeirrar skerðingar á frelsi fólksins í landinu sem krónan er nú um stundir. Í síðustu viku talaði forsætisráðherra til erlendra fjárfesta á fundi í London og lagði á það allan þann þunga sem hann mátti að íslenska krónan myndi um fyrirsjáanlega framtíð gilda í viðskiptum milli Íslands og umheimsins. Þar var ekki talað ofan af bergkastala frjálsrar þjóðar því að allir vita að í þeim boðskap felst að höftin verða áfram ríkjandi eða hraðahindranir í gjaldeyrisyfirfærslum eins og farið er að kalla þau í fegurðarskyni eða tálsýnartilgangi.Að semja með ógjaldgengan gjaldmiðil Það eru ekki aðeins útlendingar sem þurfa að sæta því að viðskipti við Íslendinga fari fram með gjaldmiðli sem ekki er gjaldgengur. Launafólk þarf að semja um kaup og kjör með þessum sama óræða mælikvarða. Þetta er helsta ástæðan fyrir því að endurreisnin gengur hægar en óskir flestra standa til. Sama dag og Seðlabankinn tilkynnti um nýja Jónasarseðilinn, sem rýrnaði um helming meðan hann var í vinnslu, gerðu Samtök atvinnulífsins grein fyrir stefnu sinni í komandi kjarasamningum. Markmið þeirra eru svipuð þeim sem Alþýðusambandið hefur lýst þó að nálgunin sé ekki sú sama: Kaupmátturinn þarf að byggjast á verðmætasköpun og stöðugleika. Allir vilja forðast lausnir verðbólgufroðunnar. Í vor sem leið var það samdóma álit aðila vinnumarkaðarins að ekki væri forsenda fyrir gerð kjarasamninga til langs tíma vegna óvissu um stjórnarstefnuna. Það yrði að bíða haustsins þegar fjárlagafrumvarpið lægi fyrir. Þetta var aðvörun fremur en áfellisdómur um nýja ríkisstjórn. En sennilega lýsti þessi afstaða helst bjartsýni með fyrirvara. Von er á fjárlagafrumvarpinu á þriðjudag. Án þess að efni þess hafi verið kynnt er það enn álit aðila vinnumarkaðarins að forsendur skorti til að gera kjarasamninga til langs tíma. Þeir telja nú að heildarstefna ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum og peningamálum verði ekki orðin nægjanlega skýr fyrr en að ári. Þessi ítrekaða frestun á skilyrðum til langtímasamninga þarf ekki sjálfkrafa að leiða til óskynsamlegrar niðurstöðu eða verðbólgu. En þetta segir þá sögu að ríkisstjórnin hefur ekki áunnið sér það traust sem hún þarf til að ná víðtækri samstöðu um nýja efnahagsáætlun sem varðað getur langa og torsótta leið til endurreisnar. Ekki er unnt að loka augunum fyrir þeirri þungu aðvörun sem í þessu felst.Prófsteinn á samstarf Samtök atvinnulífsins, Alþýðusambandið og Viðskiptaráð sendu forsætisráðherra erindi um aðild að þeirri úttekt á aðildarsamningunum við Evrópusambandið sem boðuð hefur verið. Það mál veit að ýmsum þeim lykilatriðum sem verðmætasköpun og stöðugleiki byggist á. Ekkert er því eðlilegra en að ríkisstjórnin eigi samvinnu við vinnumarkaðinn um þessa skýrslu. Samvinna af þessu tagi gæti falið í sér að skýrslan yrði víðtækari en áformað var og þar yrði svarað fleiri spurningum. Það getur aðeins leitt til þess að hún verði gagnlegri og trúverðugri. Markmiðið hlýtur að vera það eitt að auðvelda mönnum að draga ályktanir og taka ákvarðanir. Margir héldu að ríkisstjórnin hefði notað sumarið til þess að vinna á bak við tjöldin með aðilum vinnumarkaðarins að gerð nýrrar efnahagsáætlunar til lengri tíma. Það reyndist ekki vera. Aftur á móti hafa verið sagðar fréttir af nánu samráði forsætisráðherra við formann Verkalýðsfélags Akraness. Það virkar eins og Obama hefði kallað formann fjárlaganefndar til samráðsfundar við sig í Stokkhólmi á dögunum í stað forsætisráðherra. Svarið við þessu erindi um sameiginlega skýrslu er fyrsti prófsteinninn sem sýnir hvers vænta má í samvinnu ríkisstjórnarinnar við launafólk og atvinnulíf. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið Evrópusambandið eða nasismi Snorri Másson Skoðun Hlýnun jarðar mun ekki valda heimsendi Sæunn Kjartansdóttir Skoðun SVEIT – Kastið inn handklæðinu Aðalsteinn Árni Baldursson Skoðun Gaza getur ekki beðið lengur Hjálmtýr Heiðdal,Magnús Magnússon Skoðun Ísland yrði betra með aðild að Evrópusambandinu Jón Frímann Jónsson Skoðun Hugvíkkandi efni: Forvitni umfram dómhörku Bergsveinn Ólafsson Skoðun Opið bréf til Íslandspósts ohf. Gróa Jóhannsdóttir Skoðun Skjáfíkn - vísindi eða trú? Ásdís Bergþórsdóttir Skoðun Friður eða svikalogn? Hilmari Þór Hilmarssyni, prófessor, svarað Andri Þorvarðarson Skoðun Listin að styðja en ekki stýra Árni Sigurðsson Skoðun
„Búinn er úr bálastorku / bergkastali frjálsri þjóð.“ Þessar ljóðlínur er að finna í kvæði Jónasar, Fjallið Skjaldbreiður. Tómas sagði um Jónas að hann hefði verið vegsögumaður þjóðar sinnar á leiðinni til meiri fegurðar og frelsis. Haft er eftir Sigurði Nordal að íslenska sé það sem Jónas skrifaði og Konráð samþykkti. Varla er unnt að lyfta einum manni til meiri vegs. Á miðvikudag í þessari viku tilkynntu handhafar fullveldisins í peningamálum að gefinn verði út tíu þúsund króna seðill tileinkaður Jónasi og með tilvitnun í ljóðið Fjallið Skjaldbreiður. En nú er hún Snorrabúð stekkur. Verðgildi nýja seðilsins er helmingi lægra en það var þegar undirbúningur útgáfunnar hófst. Seðillinn minnir ekki á bergkastala frjálsrar þjóðar. Þvert á móti er hann tákn um haftamúr og skert frelsi. Það er ekki í mannlegu valdi að minnka listaskáldið. En fremur er það þó fallið til að létta pund Jónasar en hitt að gera hann, að öllu án tilefnis, að helstu sýnilegu ímynd þeirrar skerðingar á frelsi fólksins í landinu sem krónan er nú um stundir. Í síðustu viku talaði forsætisráðherra til erlendra fjárfesta á fundi í London og lagði á það allan þann þunga sem hann mátti að íslenska krónan myndi um fyrirsjáanlega framtíð gilda í viðskiptum milli Íslands og umheimsins. Þar var ekki talað ofan af bergkastala frjálsrar þjóðar því að allir vita að í þeim boðskap felst að höftin verða áfram ríkjandi eða hraðahindranir í gjaldeyrisyfirfærslum eins og farið er að kalla þau í fegurðarskyni eða tálsýnartilgangi.Að semja með ógjaldgengan gjaldmiðil Það eru ekki aðeins útlendingar sem þurfa að sæta því að viðskipti við Íslendinga fari fram með gjaldmiðli sem ekki er gjaldgengur. Launafólk þarf að semja um kaup og kjör með þessum sama óræða mælikvarða. Þetta er helsta ástæðan fyrir því að endurreisnin gengur hægar en óskir flestra standa til. Sama dag og Seðlabankinn tilkynnti um nýja Jónasarseðilinn, sem rýrnaði um helming meðan hann var í vinnslu, gerðu Samtök atvinnulífsins grein fyrir stefnu sinni í komandi kjarasamningum. Markmið þeirra eru svipuð þeim sem Alþýðusambandið hefur lýst þó að nálgunin sé ekki sú sama: Kaupmátturinn þarf að byggjast á verðmætasköpun og stöðugleika. Allir vilja forðast lausnir verðbólgufroðunnar. Í vor sem leið var það samdóma álit aðila vinnumarkaðarins að ekki væri forsenda fyrir gerð kjarasamninga til langs tíma vegna óvissu um stjórnarstefnuna. Það yrði að bíða haustsins þegar fjárlagafrumvarpið lægi fyrir. Þetta var aðvörun fremur en áfellisdómur um nýja ríkisstjórn. En sennilega lýsti þessi afstaða helst bjartsýni með fyrirvara. Von er á fjárlagafrumvarpinu á þriðjudag. Án þess að efni þess hafi verið kynnt er það enn álit aðila vinnumarkaðarins að forsendur skorti til að gera kjarasamninga til langs tíma. Þeir telja nú að heildarstefna ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum og peningamálum verði ekki orðin nægjanlega skýr fyrr en að ári. Þessi ítrekaða frestun á skilyrðum til langtímasamninga þarf ekki sjálfkrafa að leiða til óskynsamlegrar niðurstöðu eða verðbólgu. En þetta segir þá sögu að ríkisstjórnin hefur ekki áunnið sér það traust sem hún þarf til að ná víðtækri samstöðu um nýja efnahagsáætlun sem varðað getur langa og torsótta leið til endurreisnar. Ekki er unnt að loka augunum fyrir þeirri þungu aðvörun sem í þessu felst.Prófsteinn á samstarf Samtök atvinnulífsins, Alþýðusambandið og Viðskiptaráð sendu forsætisráðherra erindi um aðild að þeirri úttekt á aðildarsamningunum við Evrópusambandið sem boðuð hefur verið. Það mál veit að ýmsum þeim lykilatriðum sem verðmætasköpun og stöðugleiki byggist á. Ekkert er því eðlilegra en að ríkisstjórnin eigi samvinnu við vinnumarkaðinn um þessa skýrslu. Samvinna af þessu tagi gæti falið í sér að skýrslan yrði víðtækari en áformað var og þar yrði svarað fleiri spurningum. Það getur aðeins leitt til þess að hún verði gagnlegri og trúverðugri. Markmiðið hlýtur að vera það eitt að auðvelda mönnum að draga ályktanir og taka ákvarðanir. Margir héldu að ríkisstjórnin hefði notað sumarið til þess að vinna á bak við tjöldin með aðilum vinnumarkaðarins að gerð nýrrar efnahagsáætlunar til lengri tíma. Það reyndist ekki vera. Aftur á móti hafa verið sagðar fréttir af nánu samráði forsætisráðherra við formann Verkalýðsfélags Akraness. Það virkar eins og Obama hefði kallað formann fjárlaganefndar til samráðsfundar við sig í Stokkhólmi á dögunum í stað forsætisráðherra. Svarið við þessu erindi um sameiginlega skýrslu er fyrsti prófsteinninn sem sýnir hvers vænta má í samvinnu ríkisstjórnarinnar við launafólk og atvinnulíf.