„Vistvænar samgöngur“ yfir Fossvog eru nú komnar inn á aðalskipulag bæði í Kópavogi og í Reykjavík eftir að nýsamþykktar breytingar á aðalskipulagi hvors sveitarfélags fyrir sig.
„Þetta þýðir að nú eru komnar forsendur til þess að taka þetta verkefni áfram á næsta stig ef vilji er til þess,“ segir Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi.
Starfshópur á vegum sveitarfélaganna lagði fyrr á þessu ári til hjóla- og göngustíg frá vesturhluta Kársness að brautarenda Reykjavíkurflugvallar.
„Næstu skref gætu falist í því að fara yfir fjármögnun Kópavogs, Reykjavíkur og Vegagerðarinnar en einnig þarf að fara vel yfir alla umhverfisþætti og hvernig mannvirkið gæti samrýmst siglingum á svæðinu,“ segir Ármann. Ljóst sé að brú með vistvænum samgöngum myndi breyta stöðu Kársness innan höfuðborgarsvæðisins og tengja betur saman byggðir beggja vegna Fossvogs.
„Íbúar Kópavogs og Reykjavíkur gætu um leið notið betur þeirrar náttúruperlu sem Fossvogurinn er,“ segir bæjarstjórinn.