1. deildarlið Tindastóls komst í kvöld í undanúrslit Poweradebikars karla í körfubolta eftir fimm stiga útisigur á Fjölni, 76-71. Stólarnir hafa þar með ekki tapað leik í vetur en þeir hafa unnið alla tíu leiki sína í 1. deildinni.
Tindastólsmenn tryggðu sér sigurinn með frábærum endakafla en liðið vann síðustu sjö mínútur leiksins 19-10. Fjölnir var 62-57 yfir þegar sjö mínútur voru eftir af leiknum en tókst ekki að halda út leikinn.
Antoine Proctor skoraði 21 stig fyrir Tindastóll, Darrell Flakevar með 19 stig og fyrirliðinn Helgi Rafn Viggósson skoraði 16 stig. Daron Lee Sims var með 19 stig og 14 fráköst hjá Fjölnir og Ólafur Torfason var með 17 stig og 14 fráköst.
Tindastóll er mikið bikarlið en liðið hefur verið í undanúrslitum bikarsins í þrígang á síðustu fjórum tímabilum og fór alla leið í bikarúrslitaleikinn árið 2012.
Bárður Eyþórsson, þjálfari Tindastóls, er að gera frábæra hluti með liðið en Stólarnir hafa unnið alla þrettán leiki sína í deild og bikar á leiktíðinni.
Fjölnir-Tindastóll 71-76 (18-18, 17-18, 23-21, 13-19)
Fjölnir: Daron Lee Sims 19/14 fráköst/3 varin skot, Ólafur Torfason 17/14 fráköst, Páll Fannar Helgason 15/4 fráköst, Garðar Sveinbjörnsson 9/4 fráköst, Emil Þór Jóhannsson 7, Róbert Sigurðsson 3/5 stoðsendingar, Andri Þór Skúlason 1.
Tindastóll: Antoine Proctor 21/10 fráköst, Darrell Flake 19/7 fráköst, Helgi Rafn Viggósson 16/8 fráköst, Helgi Freyr Margeirsson 14/5 fráköst, Ingvi Rafn Ingvarsson 4, Viðar Ágústsson 2.
Körfubolti