Aníta vann frábæran sigur í 800 metra hlaupi en hin írska og hin þýska áttu ekki möguleika í íslensku hlaupastjörnuna sem setti bæði Íslandsmet fullorðinna og Evrópumet unglinga í hlaupinu.
„Ég ætlaði fyrst og fremst að passa mig á því að byrja ekki of hratt eins og ég hef tilhneigingu til að gera. Það gekk allt eftir og þetta var rosalega jafnt hlaup sem þýddi að ég átti nóg eftir í endann," sagði Aníta um hlaupið í dag.
„Það er erfitt að stilla sig af og þá sérstaklega þegar maður er svona stressaður. Ég reyndi bara að vera yfirveguð og spara kraftana þar til í endann," sagði Aníta.
„Þetta er ákveðinn áfangi á leiðinni. Ég stefni mest á þessu innanhússtímabili núna á mót í New York í febrúar þar sem ég mæti mjög sterkum stelpum í sama aldursflokki og svo HM innanhúss sem verður í Póllandi," segir Aníta.
Mótið í New York er auglýst sem einvígi þriggja af bestu ungu millivegahlaupakvenna heimsins. „Þær eru báðar mjög sterkar og eiga báðar betri tíma en ég. Ég hlakka til að mæta þeim. Ég held að ég eigi alveg erindi í þetta hlaup. Ég æfi mikið innanhúss á Íslandi útaf veðrinu og svona. Ég er því skóluð í þessu innanhússhlaupum," segir Aníta en nú þegar Evrópumetið er fallið er heimsmetið nokkuð í hættu?
„Ég veit ekki með það en ég stefni á það að gera enn betur," sagði Aníta að lokum í þessu sjónvarpsviðtali við Hauk Harðarson.
