Aaron Hernandez, fyrrum leikmaður New England Patriots, fær ekki að horfa á sitt gamla lið spila til úrslita í AFC-deildinni í NFL annað kvöld.
Hernandez var handtekinn í sumar, grunaður um að hafa orðið manni að bana. Hann var ákærður og bíður nú réttarhalda í fangelsi. Þess má geta að Hernandez liggur einnig undir grun um að hafa banað tveimur til viðbótar árið 2012.
„Honum er ekki heimilt að horfa á sjónvarp,“ sagði fulltrúi lögreglunnar í Bristol, þar sem Hernandez er í fangelsi.
„Hann fréttir kannski af leiknum í gegnum fangaverðina eða þá ef aðrir fangar tala hátt um leikinn,“ sagði hann enn fremur.
Hernandez fær ekki að eiga samskipti við aðra fanga í fangelsinu og er haldið í klefa sínum í 21 klukkustund á sólarhing.
Patriots mætir Denver Broncos í úrslitaleik AFC-deildarinnar annað kvöld en leikurinn hefst klukkan 20.00 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.
Seattle Seahawks og San Francisco 49ers eigast svo við í úrslitaleik NFC-deildarinnar klukkan 23.30. Sigurvegarar leikjanna mætast svo í Super Bowl eftir tvær vikur.
