Golf

Guðrún Brá gengur til liðs við Fresno State

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Guðrún Brá Björgvinsdóttir hóf nýverið nám við Fresno State háskólann.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir hóf nýverið nám við Fresno State háskólann. GSÍ/Jón Júlíus
Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr Golfklúbbnum Keili hefur hafið nám við Fresno State háskólann í Kaliforníu, Bandaríkjunum. Hún mun leika golf með skólanum samhliða námi.

Guðrún Brá, sem er 19 ára gömul, hefur þrátt fyrir ungan aldur verið einn besti kvenkylfingur landsins undanfarin ár og varð í öðru sæti í Íslandsmótinu í höggleik í sumar eftir umspil og bráðabana.

„Guðrún er gríðarlega hæfileikarík, metnaðargjörn og með mikla landsliðsreynslu. Koma hennar mun hafa jákvæð áhrif á liðið,“ segir Emily Milberger, þjálfari Fresno State á heimasíðu skólans.

„Hún hefur mikla ástríðu fyrir því að ná árangri og verður frábær viðbót fyrir okkar lið og fyrir mótin sem framundan eru í vor.“

Guðrún Brá er margfaldur Íslandsmeistari á unglingamótaröð GSÍ og hefur einnig tvisvar sinnum staðið uppi sem sigurvegari á Eimskipsmótaröðinni. Fresno State háskólinn er í 109. sæti á styrkleikalista yfir háskóla í Bandaríkjunum samkvæmt lista Golfweek.

Fjöldi íslenskra kylfinga sem leika í háskólagolfinu Bandaríkjunum er vel á annan tug. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×